Sjálfbærniskýrsla Strætó 2022
Viðskiptavinir

Far­þega­töl­ur

Á árinu 2022 var rúmlega 17% aukning frá fyrra ári á fjölda innstiga í vagna Strætó á höfuðborgarsvæðinu. Mesta fjölgun innstiga á milli ára var í ágúst og desember, eða um  23%.

Fjöldi innstiga á höfuðborgarsvæðinu Eftir mánuðum

Fæst innstig voru í janúar en þá giltu enn strangar samkomutakmarkanir vegna heimsfaraldurs. Í nóvember voru flest innstig ársins 2022. Þá hafa aldrei mælst fleiri innstig í desembermánuði en í desember 2022 síðan reglulegar mælingar hófust. Farþegafjöldi í Strætó dróst verulega saman í heimsfaraldrinum en fyrir faraldurinn hafði innstigum fjölgað nokkuð. Notendum Strætó fjölgaði aftur á árinu 2022 miðað við árin á undan og er það ánægjuleg þróun.

Fjöldi innstiga í Strætó á höfuðborgarsvæðinu eftir mánuðum 2022

  • 2020
  • 2021
  • 2022

Fjöldi innstiga á höfuðborgarsvæðinu Eftir leiðum

Leiðakerfi Strætó tók ýmsum breytingum á árinu. Í janúar byrjaði ný pöntunarleið, leið 25, að aka frá Gufunesi að Spöng. Í febrúar byrjaði einnig ný pöntunarleið, leið 26, að aka frá Ásvallalaug að Hellnahrauni í Hafnarfirði.

Eftir krefjandi rekstur á tímum heimsfaraldurs og miklar kostnaðarverðshækkanir  þurfti að skera niður í rekstri. Akstur á kvöldin var því styttur á flestum leiðum í apríl og tíðni var minnkuð á annatíma á leiðum 6, 19, 24 og 28.

Sumarið 2022 var tilraunaverkefni sett af stað með akstur næturleiða. Næturleiðirnar keyrðu frá júlí til byrjun október. Alls nýttu tæplega 6000 farþegar næturleiðirnar. Leið 101 sem ók frá miðbænum til Hafnafjarðar var mest nýtta næturleiðin. Minnst nýtta næturleiðin var leið 107 sem ók frá miðbæ Reykjavíkur að Seltjarnarnesi.

Innstig eftir leiðum 2020-2022*

*Án næturleiða og pöntunarþjónustu

  • 2020
  • 2021
  • 2022

*Án næturleiða og pöntunarþjónustu

Meðal innstig á virkum dögum Eftir tíma dags

Meðalinnstigum á dag á virkum dögum árið 2022 fjölgaði á öllum tímum dags miðað við árin 2020 og 2021 nema á kvöldin eftir kl. 23. Í apríl 2022 þurfti að skera niður í rekstri og þjónusta á kvöldin var skert í seinustu ferðum á flestum leiðum. Flest innstig mældust á milli klukkan 15 og 16.

Meðal innstig á virkum dögum, eftir tíma dags 2022

  • Innstig 2020
  • Innstig 2021
  • Innstig 2022

20 mest notuðu stoppistöðvarnar

Í eftirfarandi töflu má sjá samtals inn- og útstig að meðaltali á virkum dögum beggja vegna vegar fyrir 20 fjölförnustu stoppistöðvar á höfuðborgarsvæðinu árið 2022.

Mjóddin var fjölfarnasta stöðin árið 2022. Aðrar skiptistöðvar; Hlemmur, Hamraborg og Ártún koma þar á eftir og hefur orðið talsverð aukning á innstigum á milli ára 2021 til 2022. Þá er vert að nefna að stöðin Norðurbær náði ekki á topp 20 listann árið 2021 en kemur sterk inn árið 2022 í tuttugasta sætið, en um 87% fleiri inn- og útstig voru við Norðurbæ 2022 miðað við árið 2021.

20 mest notuðu stoppistöðvarnar 2022


Sala far­gjalda

Í upphafi árs gætti enn áhrifa heimsfaraldurs og fyrstu tveir mánuðir ársins báru þess glöggt merki. Sala fargjalda var langt undir væntingum þessa mánuði en fór svo vel af stað og er nú á pari við það sem var fyrir faraldurinn.

Fargjaldatekjur 2020 -2022

Fargjaldatekjur á milli ára. Allar fjárhæðir eru í þús. kr.

  • 2020
  • 2021
  • 2022

Sumarkort Strætó 2022

Sumarkort Strætó var frítt tímabilskort fyrir ungmenni (12-17 ára) á höfuðborgarsvæðinu. Kortið gilti frá 1. júlí til 31. júlí 2022 og opnað var fyrir umsóknir um kortið í vefverslun Strætó í júní.

Markmið verkefnisins var að hvetja ungmenni til að prófa að nota Strætó í júlí. Árangur verkefnisins var nokkuð góður, en alls voru gefin út 2.370 sumarkort, af þeim voru 2.117 kort send í Klapp app ungmenna og helmingur notenda voru nýir notendur í Klapp greiðslukerfinu.
Sumarkort voru skönnuð alls 14.859 sinnum í mánuðinum, meðalfjöldi skannana á hvert sumarkort sem gefið var út voru því 6,3 yfir mánuðinn.

Tímabilskorthafar á höfuðborgarsvæðinu aldrei verið fleiri

Árið 2022 voru tímabilskorthafar 19.138 talsins eða sem samsvarar um 7,94% af íbúafjölda höfuðborgarsvæðisins það ár. Til samanburðar var fjöldinn 17.525 árið 2019, sem er mesti fjöldi tímabilskorthafa sem náðst hefur hjá Strætó.

Þessi þróun er mjög jákvæð sé litið til markmiða Strætó og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um að efla notkun almenningssamgangna á meðal íbúa. Eitt af meginmarkmiðum nýrrar gjaldskrár, þar sem vöruúrval mánaðarkorta var margfaldað, var að fjölga föstum notendum og tímabilskorthöfum. Reynslan hefur sýnt að korthafar tímabilskorta nota alla jafna strætó oftar samanborið við þá sem ferðast á stökum fargjöldum, en sem dæmi þá skannar tímabilskorthafi mánaðar- eða árspassann sinn að meðaltali 40 sinnum í mánuði. Til viðbótar við þennan fjölda tímabilskorthafa fá öll börn 11 ára og yngri frítt í Strætó.

Tímabilskorthafar20182019202020212022

Fjöldi tímabilskorthafa

16.474

15.952

13.021

11.885

19.138

Íbúðafjöldi á höfuðborgarsvæðinu

222.484

228.231

233.034

236.528

240.882

Hlutfall korthafa %

7,40%

6,99%

5,59%

5,02%

7,94%

Sala nemakorta

Fjöldi korthafa jókst umtalsvert á árinu eftir fremur dræma sölu árin 2020 og 2021 en korthafar á meðal nema nálgast nú sama fjölda og var árið 2019.

Með tilkomu nýrrar gjaldskrár sem innleidd var í nóvember 2021 var í fyrsta sinn boðið upp á mánaðarkort með 50% nemaafslætti. Sú ráðstöfun kom í kjölfar töluverðrar eftirspurnar námsmanna eftir slíkum kortum. Viðtökur hafa verið góðar en um 40% korthafa á meðal nema 18 ára og eldri eru skráðir í mánaðaráskrift í stað þess að vera með árskort.

Fjöldi korthafa í Strætó

Ánægja almennings gagnvart Strætó minnkar á árinu

Spurt er: Hversu jákvæð/ur eða neikvæð/ur ertu gagnvart Strætó á kvarðanum 1-5?
Vakin er athygli á því að niðurstöður benda til þess að þeir sem nota Strætó eru jákvæðari en þeir sem ekki nota Strætó.

Hversu jákvæð/ur eða neikvæð/ur ertu gagnvart Strætó? 1-5, 2018 - 2022

Hversu jákvæð/ur eða neikvæð/ur ertu gagnvart Strætó á kvarðanum 1-5?

  • Nota Strætó
  • Nota ekki Strætó

Mark­aðs­mál

Meginmarkmið ársins 2022 voru eins og áður að auka notkun almenningssamgangna og annarra vistvænna ferðamáta meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins. Þó svo að vel hafi gengið á árinu að fá fólk til að stíga um borð í Strætó á ný eftir heimsfaraldur, má segja að um endalaust verkefni sé að ræða, þar sem ávallt má gera betur að efla nýtingu vistvænna samgöngumáta.

Markmið markaðsstarfs Strætó miða að því að vekja athygli á þjónustu almenningssamgangna, styrkja jákvæða ímynd fyrirtækisins, áframhaldandi þróun greiðslulausna og vinna að því að ná fram auknum samlegðaráhrifum almenningssamgangna og örflæðilausna á höfuðborgarsvæðinu. Með aukinni samvinnu myndast öflugt net vistvænna ferðamáta fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins sem auðveldar þeim þá ákvörðun að tileinka sér nýjar og vistvænni ferðavenjur.

Klapp áberandi árið 2022

Í árslok 2021 var nýju vörumerki, Klapp, hleypt af stokkunum samhliða innleiðingu nýs greiðslukerfis. Markaðsefni Strætó árið 2022 tók því að miklu leyti mið af hinu nýja vörumerki, þar sem um miklar breytingar var að ræðu á því hvernig greitt er fyrir þjónustu Strætó. Markvisst var unnið að því að byggja upp vitund á meðal almennings á hinu nýja Klapp vörumerki. Sú vinna hefur gegnt lykilhlutverki í því að hjálpa fólki að fóta sig í nýju greiðslukerfi.

Samstarf Strætó og Storytel – taka tvö

Strætó tók höndum saman við Storytel annað árið í röð og verðlaunuðu viðskiptavini Strætó með fríum mánuði hjá Storytel. Komið var fyrir QR kóðum um borð í öllum strætisvögnum sem viðskiptavinir gátu skannað til að sækja sinn frímánuð.

Reykjavík Pride 2022 – Fegurð í frelsi

Hinsegin daga vagn Strætó sótti innblástur í þema Hinsegin daga 2022, Fegurð í frelsi.

Til að tákna það ferðalag sem hinseginbaráttan hefur gengið í gegnum og frelsið sem þau hafa barist fyrir var vagninn skreyttur fuglum í fánalitum mismunandi hópa innan hinsegin samfélagsins.

Fyrstu skrefin á nýjum samfélagsmiðli

Vinsældir samfélagsmiðilsins TikTok hafa aukist jafnt og þétt undanfarin ár og eins og fjölmörg önnur íslensk fyrirtæki tók Strætó sín fyrstu skref á miðlinum á árinu 2022.

Miðillinn er notaður sem upplýsingaveita og er markhópurinn ungir neytendur á aldursbilinu 18-25 ára. Samfélagsmiðilinn sýnir upplýsingar á heldur óformlegri og óslípaðri hátt en aðrir samfélagsmiðlar og eru efnistök því ákaflega fjölbreytt og skemmtileg.