Sjálfbærniskýrsla Strætó 2022
Ársreikningur

Árs­reikn­ing­ur 2022

Rekstrarniðurstaða er neikvæð um 834 m.kr. (2021: 439 m.kr.), en áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði neikvæð um 242 m.kr. Lakari afkoma skýrist af því að sú tekjuaukning sem fjárhagsáætlun ársins gerði ráð fyrir skilaði sér ekki sem rekja má til vaxandi verðbólgu, olíuverðhækkunn, kjarasamningsbundnum launahækkunum og styttingu vinnuvikunnar.

Eigið fé er í lok árs um 9,8 m.kr. og eiginfjárhlutfall félagsins 0,3% (2021: 26%). Handbært fé nam 539 m.kr (2021: 466 m.kr.). Um 400 m.kr. af því fé er þó ekki hluti af fé til notkunar í daglegum rekstri heldur sérstaklega eyrnamerkt rafvagnakaupum. Heimsfaraldur kórónaveiru, aukin verðbólga og olíuverðs- og launahækkanir hafa haft gríðarleg fjárhagsleg áhrif á starfsemi félagsins síðustu tvö ár og hefur því fjárhagsstaða Strætó rýrnað verulega. Eigendur lögðu félaginu til 520 m.kr. í október 2022. Einnig samþykktu eigendur í nóvember 2022 að auka rekstrarframlag um 520 m.kr. vegna ársins 2023. Með þessu er rekstrarhæfi Strætó af reglulegri starfsemi tryggt en þó einungis til skamms tíma. Styrkja þarf fjárhag félagsins til framtíðar og þurfa eigendur og ríki að leita allra leiða til að bæta reksturinn, ekki einungis til að mæta sveiflum í rekstri, heldur til að mæta auknum kröfum um sjálfbærni, orkuskipti í samgöngum og verkefni tengdum eflingu almenningssamgangna s.s. Borgarlínu.


Reikn­ings­skil og end­ur­skoð­un

Fjármálasvið Strætó sér um gerð reikningsskila og birtir uppgjör sín ársfjórðungslega. Endurskoðunarnefnd tekur ársreikning félagsins til skoðunar og gefur stjórn álit sitt á reikningsskilunum sem samþykkir og undirritar.

Meginhlutverk endurskoðunarnefndar er að hafa eftirlit með fyrirkomulagi og virkni innra eftirlits félagsins, innri endurskoðun og áhættustjórnun. Ytri endurskoðandi félagsins Grant Thornton endurskoðun ehf. endurskoðar reikningsskilin einu sinni á ári.

Endurskoðunarnefnd

Endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar starfar fyrir Reykjavíkurborg og dótturfyrirtæki hennar. Nefndina skipa Lárus Finnbogason, löggiltur endurskoðandi, Sigrún Guðmundsdóttir, löggiltur endurskoðandi, Einar S. Hálfdánarson, lögmaður og löggiltur endurskoðandi og Sunna Jóhannsdóttir viðskiptafræðingur.

Innri endurskoðun

Innri endurskoðun er skiptuð af stjórn og heyrir beint undir hana. Innri endurskoðun fer með fjármála- og stjórnsýslueftirlit hjá Strætó. Í því felst að með störfum sínum leggur innri endurskoðun mat á og bætir virkni áhættustýringar, eftirlitsaðferða og stjórnaráhættu. Innri endurskoðandi er Deloitte ehf.