Sjálfbærniskýrsla Strætó 2022
Árið 2022

Ávarp stjórn­ar­formanns

Ný stjórn Strætó tók til starfa á góðviðrisdegi 1. júlí síðastliðinn. Stjórnin er skipuð öflugu fólki sem vinnur vel saman. Ekki veitir af þar sem verkefnin eru næg en bæði fjölbreytt og skemmtileg. Hitt er svo annað mál að stjórnin tók við erfiðu búi eftir heimsfaraldurinn þar sem gengið var á nær allt eigið fé fyrirtækisins. Verðbólga og hækkanir á aðföngum Strætó, ekki síst olíu, svo og launahækkanir og stytting vinnuviku leiddu síðan til þess að framlög sveitarfélaganna voru hækkuð umtalsvert fyrir þetta ár, um 1.100 milljónir eða sem nemur tvöföldu aukaframlagi síðasta árs. Ljóst er að það mun ekki duga nema rétt til þess að halda í horfinu. Róttækra breytinga er þörf, ekki síst að endurnýja allan vagnaflotann.

Magnús Örn Guðmundsson
Stjórnarformaður Strætó

Umtalsverð hagræðing átti sér stað á árinu 2022 í rekstri Strætó. Næturstrætó var tekinn upp en lagður af enda mikil vonbrigði með það hversu fáir farþegar skiluðu sér. Enn fremur voru fargjöld hækkuð um 12,5% og eðlilega vakti það blendin viðbrögð. Samhliða auknu framlagi komu eigendur sér saman um að sérstakur hópur fjármálastjóra aðildarsveitarfélaganna myndi vinna og skila af sér tillögum um fjárhagsskipan og rekstur Strætó til framtíðar. Er það vel en gera má ráð fyrir að þær tillögur innihaldi blöndu af niðurskurði, fargjaldahækkunum og auknum framlögum. Sem sagt, ekki ný formúla. Í þessu samhengi má minna á að Covid styrkur ríkisins nam í heildina einungis 120 milljónum. Skýtur það skökku við þegar horft er á allan þann stuðning sem íslensk ferðaþjónustufyrirtæki fengu í gegnum heimsfaraldurinn. Einnig hefur framkvæmdastjóri bent á að styrkir almenningssamgangna á Norðurlöndum hafa verið mun ríflegri en hér heima. Það er umhugsunarvert. Aðalatriðið er að eigendur komi sér saman um hvert þjónustustigið eigi að vera til framtíðar og ný og raunhæf eigendastefna verði mörkuð. Í núverandi stefnu segir að 40% kostnaðar skuli koma frá fargjöldum en þetta hlutfall er ríflega 20% í dag. Raunhæft væri að miða við 30% hlutfall.

Á yfirstandandi ári mun Strætó fá 9 splunkunýja rafmagnsvagna og er það kærkomin viðbót. Fyrir eru 15 rafmagnsvagnar af liðlega 70 en Strætó þarf mun meiri fjármuni til að ráðast í endurnýjun vagnaflotans. Rafmagnsvagn kostar um 55 milljónir króna, 20 milljónum meira en díselvagn. Það kostar um 5 milljarða að endurnýja allan núverandi flota Strætó. Verktakar aka svo um 55% af leiðarkerfi Strætó og útboð á akstri framundan munu litast af skýrri kröfu um orkuskiptin. Mikilvægt er að stjórnvöld auðveldi kaup á rafmagnsvögnum, t.d. með áframhaldandi niðurfellingu virðisaukaskatts.

Gögn sem stjórn hefur skoðað gaumgæfilega sýna svo ekki verður um villst að hagkvæmara er að bjóða meira af akstrinum út. Rekstrarkostnaður verktaka er lægri, núverandi fjárbinding Strætó í flotanum er alltof há, aldur vagna verktaka er mun lægri og kolefnisfótspor minna. Strætó rekur verkstæði fyrir fjölda tegunda bíla með tilheyrandi flækjustigi og enn fremur þvottastöð. Margt af þessu stenst illa skoðun á samkeppnismarkaði. Þetta verða eigendur að horfast í augu við á sama tíma og óbreyttur rekstur er ekki í boði. Margoft hefur verið bent á það að á Norðurlöndum þekkist ekki að sveitarfélög reki sjálf hópbifreiðar þó kerfið sé fjármagnað af skattgreiðendum. Varðandi frekari útvistun bíður stjórn eftir skýrslu um áhættumat á útvistun.  Að henni fenginni ætti ekkert að vera því að vanbúnaði að hefja undirbúning að frekari útvistun aksturs með hagræðingu að leiðarljósi.

Um mitt ár mun Klappið fá nýja eiginleika til að bæta þjónustuna, þar með talið að bjóða upp á snertilausar greiðslur. Nýtt greiðslukerfi mun í framtíðinni bjóða upp á samtengingu við ólík greiðslukerfi sé vilji fyrir því. Það verður endapunkturinn á lærdómsríku ferli Strætó við innleiðingu á nýju greiðslukerfi. Það hefur verið afar ánægjulegt að sjá og upplifa þann kraft og hæfileika sem býr í starfsfólki Strætó og stjórnin veit að allir  gera sitt allra besta á hverjum einasta degi til þess að bæta þjónustu og upplifun farþega á Strætó og Klappinu. Stjórnin vill koma sérstökum þökkum til stjórnenda og starfsfólks Strætó fyrir frábært starf á árinu.

Nú stendur yfir kynning á drögum að nýju leiðaneti Strætó, þar sem Borgarlínunni er ætlað stórt hlutverk. Æskilegt er að eigendur kynni sér þessi áform vel. Rekstur Borgarlínunnar hefur enn ekki komið inn á borð stjórnar og sætir það nokkurri furðu. Ekki er vitað hver muni annast reksturinn og hver áætlaður kostnaður af rekstri Borgarlínunnar er. Ljóst er að nýtt leiðanet er mjög metnaðarfullt og ekki er útilokað að það geti kostað 13-15 milljarða miðað við forsendur um tíðni og gæði. Það hljómar auðvitað sérkennilega þegar ekki fæst meira fjármagn í rekstur Strætó í núverandi mynd. Margt annað er einnig óútfært. Mikilvægt er að hefjast handa við að rýna þetta, hver svo sem fenginn verður í verkefnið. Aðalatriðið er að taka þarf á vandamálum í dag, ekki á morgun. Strætó þarf að eflast og verða betri og þarf til þess stuðning. Draumsýn um nýtt og betra kerfi má ekki bitna á Strætó heldur þarf að styrkja fyrirtækið. Engin ástæða er til að finna upp hjólið, enn einu sinni.

Áfram Strætó!

Magnús Örn Guðmundsson, stjórnarformaður


Ávarp fram­kvæmda­stjóra

Rekstur Strætó varð fyrir miklum utanaðkomandi áhrifum á árinu 2022. Fyrri hluta árs gætti enn þá áhrifa heimsfaraldurs Covid-19 og svo brast út stríð í Úkraínu sem leiddi til mikilla kostnaðarverðshækkana. Þrátt fyrir þetta eru jákvæð teikn á lofti. Fleiri nota almenningssamgöngur en fyrri ár, markmið um kolefnislausan vagnaflota standa óbreytt og spennandi nýjungar eru framundan í Klapp greiðslukerfinu. Ljóst er þó að brýnt er að endurnýja vagnaflotann og þurfa því almenningssamgöngur á stuðningi ríkis og sveitarfélaga að halda til að sinna þeirri þjónustu af kostgæfni.

Jóhannes Svavar Rúnarsson Framkvæmdastjóri Strætó
Jóhannes Svavar Rúnarsson Framkvæmdastjóri Strætó

Á fyrstu tveimur mánuðum ársins 2022 voru enn fjöldatakmarkanir í gildi vegna heimsfaraldurs Covid-19 og höfðu þær töluverð áhrif á fjárhag Strætó. Þá var ráðist inn í Úkraínu í lok febrúar sem varð til þess að kostnaður hækkaði umtalsvert og þá sérstaklega vegna olíuverðshækkana. Mikil efnahagsóvissa ríkti vegna þessa sem varð þess valdandi að afkoma félagsins var undir áætlun á árinu 2022.

Strætó stefnir að kolefnislausum vagnaflota árið 2030 og vonast er eftir að það metnaðarfulla markmið náist. Endurnýjunaráætlun vagna hefur hins vegar ekki gengið eftir vegna áðurnefndra atburða og fjárhagsstöðu félagsins. Vagnaflotinn er orðinn gamall sem gerir það að verkum að óvissa ríkir um að hægt verði að halda uppi núverandi þjónustustigi leiðakerfisins nema gripið verði til róttækra aðgerða og fjárfest í nýjum vögnum.

Ljóst er að Strætó þarf á fjárhagslegum stuðningi eigenda sinna að halda. Gengið hefur verið á handbært og eigið fé félagsins sem líklega verður nálægt núlli í árslok 2023. Stjórn Strætó óskaði eftir að KPMG gerði fjárþarfagreiningu og var það mat þeirra að fjárhagsþörf félagsins væri um 1,5 milljarðar króna og þar af a.m.k. 1 milljarður á árinu 2022. Þannig að miklar áskoranir blasa við í rekstri félagsins. Eigendur Strætó samþykktu í október að leggja félaginu til aukalega, rúmar 520 milljónir króna og hefja vinnu við frekari greiningu á fjárhagsþörf félagsins.

Klapp greiðslukerfið, sem tekið var í notkun í nóvember 2021, skilaði auknum tekjum á árinu. Nokkrir byrjunarörðugleikar voru í upphafi þar sem virkni skanna í vögnum var ekki eins og best var á kosið. Nú er virkni kerfisins orðin mjög góð og unnið er að frekari þróun og innleiðingu nýjunga eins og til dæmis greiðsluþak, „pay as you go“ – ferðafrelsi og snertilausra greiðslumöguleika. Þá eru í Klapp appinu frekari nýjungar sem snúa að bættri upplýsingagjöf til viðskiptavina, s.s. öflugur leiðavísir, rauntímaupplýsingar um vagna og staðsetning rafskúta. Með nýjum greiðslulausnum í Klapp appinu eykst sveigjanleiki á greiðslu fargjalda sem gerir notkun þess einfaldari. Með þessum lausnum má vænta talsverðri fjölgun farþega. Allt að eitt hundrað almenningssamgöngufyrirtæki í heiminum eru nú þegar búin að innleiða snertilausar greiðslur og á annað hundrað önnur í innleiðingarferli.

Strætó er leiðandi á sínu sviði þegar litið er til sjálfbærni og umhverfismála. Stöðugt er leitað leiða til að minnka kolefnisspor í allri starfsemi félagsins. Dýrmæt reynsla hefur skapast innan Strætó í notkun stórra farartækja sem nota rafmagn sem orkugjafa og segja má að félagið sé í fararbroddi í þeim efnum. Í rekstri Strætó eru 15 rafmagnsvagnar, þeir elstu frá árinu 2017 sem eknir hafa verið yfir 350.0000 km. Á hverju ári eru rafmagnsvagnar eknir um 70.000 til 80.000 km sem hefur mjög jákvæð áhrif á rekstrarkostnað og dregið verulega úr olíunotkun. Þá hefur Strætó keypt 9 minni rafmagnsvagna sem teknir verða í notkun síðar á árinu 2023. Hlutfall rafmagnsvagna af flota Strætó verður því rúmlega 30% en um 14% af heildarvagnaflota á höfuðborgarsvæðinu.

Þrátt fyrir áskoranir í rekstri ríkir bjartsýni um betri tíma. Frá desember 2022 hefur farþegafjöldi aukist og hefur nú náð sömu hæðum og fyrir heimsfaraldur. Vert er að geta þess að áðurnefndur desembermánuður var fjöldi farþega mestur frá upphafi rafrænna mælinga. Því má segja að almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu hafi nokkurn meðbyr, sérstaklega þegar kemur að umhverfisvænum ferðamáta. Það eru því tækifæri fyrir alla hlutaðeigandi, sveitarfélög, ríki og kjörna fulltrúa að efla rekstur Strætó, veita félaginu það fjármagn sem þarf svo almenningssamgöngur nái því að vera umhverfisvænn og hagkvæmur ferðamáti sem bætir lífsgæði íbúa.

Ég vil þakka samstarfsfólki hjá Strætó og akstursaðilum fyrir eljusemi og frábært starf í gegnum krefjandi aðstæður og áskoranir síðusta ára en líta jafnframt björtum augum til framtíðar.

Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó


Stjórn­ar­hætt­ir

Góðir stjórnarhættir Strætó eiga að tryggja fagmennsku, hagkvæmni, ráðdeild, gegnsæi og ábyrgð í rekstri.

Stjórn Strætó birtir hér yfirlýsingu um stjórnarhætti fyrir árið 2022. Stjórnarhættir vísa til hlutverks og ábyrgðar stjórnar og stjórnenda og því hvernig ákvörðunartaka fer fram, í samræmi við gildandi lög og reglur.


Hlut­verk Strætó

Strætó er þjónustufyrirtæki á sviði almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu.

Undir þetta hlutverk fellur rekstur almenningsvagna og Pant akstursþjónusta sem er akstursþjónusta fyrir fatlaða og aldraða.


Stjórn­skipu­lag Strætó bs.

Strætó er byggðasamlag og í eigu sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu: Reykjavíkurborg, Kópavogur, Hafnarfjörður, Garðabær, Mosfellsbær og Seltjarnarnes.

Stjórn Strætó fer með æðsta vald félagsins samkvæmt lögum, reglum og samþykktum. Meginskyldur stjórnar er að sinna eftirlitshlutverki með starfsemi félagsins. Hlutverk og skyldur stjórnar eru skilgreind ítarlega í starfsreglum stjórnar sem byggðar eru á stofnsamningi og eigendastefnu félagsins.

Í stjórn Strætó sitja sex fulltrúar sem kosnir eru af sveitarstjórnum aðildarsveitarfélaganna til tveggja ára í senn. Jafnframt eru kosnir sex varafulltrúar til jafnlangs tíma. Stjórnarmenn og varafulltrúar þeirra skulu uppfylla hæfiskröfur sveitarstjórnarlaga. Fulltrúar sveitarfélaganna skiptast á að gegna formennsku stjórnar, tvö ár í senn.

Stjórn Strætó ræður framkvæmdastjóra sem fer með daglegan rekstur í samræmi við þá stefnu sem hún setur. Hlutverk og skyldur framkvæmdastjóra eru skilgreind ítarlega í starfsreglum stjórnar, framkvæmdastjóri Strætó er Jóhannes Svavar Rúnarsson. Stjórnin setur félaginu markmið og heildarstefnu og framtíðarsýn í samræmi við eigendastefnu og skilgreinir í henni mælikvarða í rekstri félagsins. Stefnan skal í það minnsta fela í sér markmið í umhverfismálum, jafnréttis- og starfsmannamálum.

Stjórnarfundi skal halda svo oft sem þörf krefur, en stefnt skal að því að þeir verði ekki haldnir sjaldnar en mánaðarlega. Í upphafi hvers árs skal lögð fram starfsáætlun sem hefur að geyma áætlun fyrir reglubundna stjórnarfundi ársins. Á árinu 2022 voru haldnir 14 stjórnarfundir. Fundargerðir stjórnarfunda má nálgast á heimasíðu Strætó.

Stjórn framkvæmir árlega árangursmat þar sem lagt er mat á störf stjórnar, verklag og starfshætti.
Árangursmat stjórnar fór fram í febrúar 2022.

Stjórn Strætó 2022

Varamenn í Stjórn Strætó

  • Hjálmar Sveinsson, Reykjavík
  • Sigvaldi Egill Lárusson, Kópavogur
  • Margrét Vala Marteinsdóttir, Hafnarfjörður
  • Gunnar Valur Gíslason, Garðabær
  • Örvar Jóhannsson, Mosfellsbær
  • Ragnhildur Jónsdóttir, Seltjarnarnes

Framkvæmdastjórn Strætó


Lög, reglur og tilmæli

Strætó starfar á grundvelli sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Í kafla 2 og 3 í stofnsamningi er nánari útlistun á stofnendum, eigendahlutföllum og stjórnskipulagi. Samkvæmt gr. 3.4 í eigendastefnu eiga stjórnarhættir að tryggja fagmennsku, hagkvæmni, ráðdeild, gegnsæi og ábyrgð í rekstrinum.

Stjórnarmenn skulu í störfum sínum fylgja lögum, eigendastefnu og starfsreglum stjórnar sem og sannfæringu sinni, gæta almannahagsmuna og hagsmuna byggðasamlagsins. Eigendastefna er aðgengileg á vefsíðu Strætó.

Einnig eiga eftirfarandi lög og reglur við um rekstur Strætó: Lög um farþegaflutninga og farmflutninga á landi nr. 28/2017, og reglugerð um leyfi til að stunda farþegaflutninga og farmflutninga á landi.

Framsetning stjórnarháttayfirlýsingar 2022 er með hliðsjón af leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja sem gefnar voru út 1. júlí 2021 (6.útg.) af Viðskiptaráði Íslands, Nasdaq Iceland og Samtökum atvinnulífsins. Leiðbeiningarnar eru aðgengilegar á vefsíðu Viðskiptaráðs Íslands, https://leidbeiningar.is

Strætó uppfyllir ákvæði leiðbeininganna að frátöldum kafla 1 sem fjallar um hluthafa og hluthafafundi, þar sem það á ekki við um félagið. Einnig hefur ekki verið gerð starfskjarastefna, né starfskjaranefnd skipuð. Stefna um sjálfbærni og fjölbreytileika í tengslum við stjórn, framkvæmdastjórn og æðstu stjórnendur samkvæmt grein 2.9 hefur ekki verið skráð.

Strætó hefur sett sér ítarlegar starfsreglur, siðareglur og stefnumörkun sem hægt er að finna á heimasíðu Strætó. Helstu stefnur eru:

Innra eftirlit og áhættustjórnun

Innra eftirlit

Stjórn ber ábyrgð á því að til staðar sé virkt kerfi innra eftirlits og áhættustjórnunar, það sé skjalfest og virkni þess sannreynd reglulega. Innra eftirlit skal veita hæfilega vissu um; að félagið nái árangri og skilvirkni í starfsemi í samræmi við markmið félagsins; áreiðanleika og réttmæti fjárhagsupplýsinga sem veittar eru ytri aðilum og fylgt sé lögum og reglum sem gilda um starfsemina. Við uppbyggingu á innra eftirliti er tekið mið af ramma COSO, sem er alþjóðlegur viðurkenndur rammi um innra eftirlit.

Áhættustjórnun

Áhættustjórnun er ferli til að greina og mæla þá áhættuþætti sem komið geta í veg fyrir að félagið nái settum markmiðum.

Árlega skilgreinir Strætó þá áhættuþætti sem félagið þarf að takast á við og skilgreinir viðbrögð við þeirri áhættu sem um ræðir. Strætó flokkar áhættuþætti sína í eftirfarandi:

  • Kjarnaáhætta: Fylgir kjarnastarfsemi eins og hún er skilgreind í eigendastefnu Strætó, þ.e. að „starfrækja almenningssamgangnaþjónustu á svæði eigenda sinna með samræmdu leiðakerfi og gjaldskrá.“
  • Fjárhagsleg áhætta: sem skiptist í eftirfarandi undirflokka: markaðsáhætta, þ.e. áhrif markaðssveiflna á
    fjárhagslegan styrk Strætó. Lausafjáráhætta, þ.e. geta Strætó til að mæta rekstrarútgjöldum, standa undir
    greiðslubyrði lána, sinna reglulegu viðhaldi, endurnýja vagnaflota og ráðast í aðrar nauðsynlegar
    fjárfestingar. Mótaðilaáhætta, þ.e. áhrif hugsanlegra vanskila viðskiptavina á félagið, t.d. að eigendur og
    viðskiptamenn hafi fjárhagslega burði til að standa við skuldbindingar sínar við Strætó.
  • Rekstraráhætta: sem felur í sér áhættu vegna taps af ófullnægjandi eða gölluðum innri kerfum, vegna
    starfsmanna eða vegna ytri þátta, s.s. lagalegrar áhættu. Um er að ræða áhættu sem tengist
    starfsmönnum, ferlum og kerfum.

Til að tryggja að reikningsskil Strætó séu í samræmi við sveitarstjórnarlög og settar reikningsskilareglur, hefur félagið skilgreint ábyrgðasvið, eðlilega aðgreiningu starfa, skýrar verklagsreglur og verkferla og er með reglulega skýrslugjöf. Reglulegt eftirlit með afkomu og fylgni við samþykkta fjárhagsáætlun. Fjármálasvið leggur ársfjórðungslegt uppgjör fyrir stjórn.

Reikningsskil og endurskoðun

Fjármálasvið Strætó sér um gerð reikningsskila og birtir uppgjör sín ársfjórðungslega. Endurskoðunarnefnd tekur ársreikning félagsins til skoðunar og gefur stjórn álit sitt á reikningsskilunum sem samþykkir og undirritar. Meginhlutverk endurskoðunarnefndar er að hafa eftirlit með fyrirkomulagi og virkni innra eftirlits félagsins, innri endurskoðun og áhættustjórnun. Ytri endurskoðandi félagsins er Grant Thornton endurskoðun ehf.

Endurskoðunarnefnd

Endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar starfar fyrir Reykjavíkurborg og dótturfyrirtæki hennar. Nefndina skipa Lárus Finnbogason, löggiltur endurskoðandi, Sigrún Guðmundsdóttir, löggiltur endurskoðandi, Einar S. Hálfdánarson, lögmaður og löggiltur endurskoðandi og Sunna Jóhannsdóttir viðskiptafræðingur.

Innri endurskoðun

Innri endurskoðun er skipuð af stjórn og heyrir beint undir hana. Innri endurskoðun fer með fjármála- og stjórnsýslueftirlit hjá Strætó. Í því felst að með störfum sínum leggur innri endurskoðun mat á og bætir virkni áhættustýringar, eftirlitsaðferða og stjórnaráhættu. Innri endurskoðandi er Deloitte ehf.